5. sæti

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir er þrítug og býr með hundinum Simba á Akureyri. Jana er fædd á Akureyri, alin upp þar og að hluta til á Öndólfsstöðum í Reykjadal. Eftir að hafa búið í Reykjavík í tæp sex ár og eitt í Berlín flutti Jana aftur heim til Akureyrar í lok árs 2017.

Jana útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2011, kláraði B.Sc. gráðu í Efnafræði við Háskóla Íslands og stundaði nám í klassískum söng meðfram því námi. Í HÍ tók Jana virkan þátt í félagslífi og var m.a. formaður Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við HÍ. Jana var í klassísku söngnámi við Listaháskóla Íslands í þrjár annir og stundar nú mastersnám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst.

Jana hefur lengi unnið við ferðaþjónustu, lengst af á hótelum og hefur síðustu fimm sumur verið hótelstjóri hjá Hótel Eddu. Jana hefur starfað á leikskólanum Hólmasól, Bílaleigu Akureyrar og veitingastaðnum Berlín. Jana er varabæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs á Akureyri og situr í nefndum og stjórnum á vegum bæjarfélagsins.

Helstu áhugamál eru söngur og tónlist, íþróttir, þá helst handbolti, útivist, að prjóna og leysa krossgátur og samvera með fjölskyldu og vinum. Ásamt brennandi áhuga á samfélagsumræðu, stjórnmálum og félagslegu réttlæti.

Heilbrigðismál í kjördæminu eru Jönu hugleikinn, sér í lagi í staða geðheilbrigðisþjónustu. Hún vill sjá heildstæða stefnu og framtíðarsýn í þeim málaflokki, sérstaklega fyrir Norðausturkjördæmi. Jana telur að minnka þurfi gjá milli ríkis og sveitarfélaga og koma í veg fyrir það að fólk lendi á milli kerfa, kerfin þurfi að virka saman.

„Norðausturkjördæmi á að vera valkostur fyrir ungt fólk og aðra samfélagshópa, við þurfum að styðja við fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölbreyttar menntunarleiðir og barnvæn samfélög.“

Aðrir frambjóðendur