Ingibjörg Þórðardóttir

1.-2. sætið

Það var líklega árið 2008 sem ég mætti á minn fyrsta fund hjá VG. Þetta var kjördæmisþing í NA-kjördæmi haldið í Mývatnssveit og ég ákvað strax að ef ég ætlaði að tilheyra þessari hreyfingu þá þyrfti ég að vera virkur félagi og láta rödd mína heyrast. Einkum fannst mér skorta hina feminísku rödd í kjördæminu, en sú rödd var áberandi annars staðar.

Ég hef síðan þá starfað í forystu hreyfingarinnar og er nú í stjórn svæðisfélagsins á Austurlandi, formaður kjördæmisráðs, í stjórn VG, ritari hreyfingarinnar og varaþingmaður. Það er krefjandi að sinna svo miklu pólitísku starfi með fullri vinnu og hef ég því ákveðið að freista þess að gera stjórnmálin ekki aðeins að mínu helsta áhugamáli heldur setja alla starfsorkuna í þau. Ég hef farið fimm sinnum inn á þing sem varaþingmaður og veit því að á þeim vettvangi get ég hugsað mér að starfa og láta til mín taka fyrir málefni VG.

Ég bý í Neskaupstað, er borin og barnfæddur Norðfirðingur og er framhaldsskólakennari við Verkmenntaskóla Austurlands. Austfirðingar hafa verið allt of fáir á þingi undanfarin misseri og það er löngu orðið tímabært að bæta úr því.

Í komandi kosningabaráttu er mikilvægt að við skerpum á okkar helstu málum. Ég hef einkum beitt mér í málum tengdum menntun, jafnrétti, landsbyggðinni, umhverfisvernd og samgöngum og mun gera það áfram.  VG breytti stjórnmálaumræðunni á Íslandi á sínum tíma og við gerum það enn. Ég vil því halda áfram að vera í forystu fyrir okkar góðu hreyfingu og óska því eftir stuðningi minna félaga.

Aðrir í forvali