10. sæti

Einar Gauti Helgason

Einar Gauti Helgason er alltaf kallaður Gauti. Hann er 26 ára uppalinn Akureyringur úr Glerárhverfinu, nánar tiltekið þorpinu. Hann er ættleiddur frá Indlandi og kom til Íslands 5 mánaða gamall. Gauti er næst yngstur í fimm manna systkinahóp.

Gauti hóf störf á Bautanum á Akureyri árið 2010, vorið 2012 byrjaði hann á samning í matreiðslu og kláraði sveinspróf í faginu 2018 við Verkmenntaskólann á Akureyri. Námstíminn hjá honum lengdist þar sem hann hafði ekki möguleika að útskrifast úr sinni iðngrein á Akureyri. Gauti hefur verið mikill talsmaður þess að nemendur í iðngreinum geti klárað sveinspróf á landsbyggðinni. Veturinn 2020 útskrifaðist hann sem meistari í matreiðslu við Verkmenntaskólann á Akureyri. Í dag starfar hann ennþá hjá Bautanum sem yfirmatreiðslumaður.

Gauti hefur gaman af að ferðast um landið og skoða íslenska náttúru. Hann hefur mjög gaman af fjölbreyttri tónlist, allt frá ítalskri óperu yfir í þýskt þungarokk.  Menntamálin eru honum ofarlega í huga, en þó sérstaklega að boðið sé upp á viðeigandi iðnmenntun á landsbyggðinni sem er mikilvæg fyrir smærri samfélög til að bæta búsetuskilyrði. Hann vill auka fjarkennslu á framhalds- og háskólastigi til þess að koma til móts við nemendur í dreifbýli. Gauti telur að nám á öllum skólastigum eigi að vera gjaldfrjálst til að tryggja jafnt aðgengi fyrir alla óháð fjárhag og búsetu.

Heilbrigðisþjónusta á líka að vera gjaldfrjáls að mati Gauta. „Ég tel það vera grundvallarmannréttindi að sækja sér menntun og almenna heilbrigðisþjónustu.“

Hann telur mikilvægt að stuðla að uppbyggingu flugvalla á landsbyggðinni til þess að dreifa erlendum og innlendum ferðamönnum um allt land, þannig megi koma í veg fyrir of mikið álag fyrir náttúruna.

Aðrir frambjóðendur