Einar Gauti Helgason

Einar Gauti Helgason, Akureyringur úr þorpinu og matreiðslumeistari, býður sig fram á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi þann 13. – 15. febrúar 2021. Ég hef undanfarin ár starfað og tekið þátt í störfum fyrir hreyfinguna. Ég hef verið virkur félagi í UVG, er varaáheyrnarfulltrúi VG í fræðsluráði Akureyrar og er ritari svæðisfélags VG Akureyri og nágrenni. Málefnin sem eru mér hugleikin eru heilbrigðismál og menntamál, ég mun áfram berjast fyrir jöfnu aðgengi að heilbrigðiskerfinu og menntarkerfinu, óháð búsetu, fjárhag og hvers konar mismunun. Ég vil efla nám til iðnmenntunar í Norðausturkjördæmi. Ég hef undanfarin ár verið í stjórn hverfisnefndar Holta- og Hlíðarhverfis á Akureyri. Ég hef mikinn áhuga á skipulagsmálum og íbúalýðræði.  Helstu baráttumál mín eru jafnrétti, jafnræði, réttlátt samfélag, umhverfismál (fyrst og fremst áhersla á matarsóun og sorpflokkun), opið stjórnkerfi, bætt húsnæðismál (sérstaklega hjá ungu fólki) og tryggja jafna dreifingu ferðamanna um allt Ísland.

Ég hef starfað á hinum víðfræga veitingastað Bautanum undanfarinn áratug, fyrst um sinn sem uppvaskari en nú sem matreiðslumeistari og yfirkokkur. Umhverfismál eru í miklum forgangi hjá mér þ.m.t. matarsóun og sorpflokkun, en miklu grettistaki þarf að lyfta á þessum vettvangi veitingastaða á Íslandi. Ég mun einnig berjast fyrir bættum aðbúnaði íslenskra bænda og stuðla að sjálfbærum og vistvænum landbúnaði. 

Ég er víðsýnn og talsmaður fjölbreyttrar menningar sem endurspeglast í tónlistarsmekk mínum sem spannar allt tónlistarsviðið frá skagfirska sveiflukónginum Geirmundi Valtýssyni til rafiðnarrokks þýsku hljómsveitarinnar Rammstein.

Aðrir í forvali