Ásrún Ýr Gestsdóttir

Ég er Hríseyingur, búsett á Akureyri ásamt fjölskyldu minni. Ég legg stund á nám í byggðaþróun við Háskólan á Akureyri, lærði áður búfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og fór svo síðar að læra kjötiðn. Ég er landsbyggðarmanneskja og mun ég tala fyrir því að landsbyggðirnar fái jöfn tækifæri til þess að blómstra. Eftir að hafa alist upp í Hrísey, búið á Raufarhöfn, Kópaskeri og daðrað við landbúnað þá eru áherslur mínar litaðar af þeirri reynslu.

Ungt fólk vill líka búa úti á landi en skortur á atvinnutækifærum og sveigjanleika hefur hindrað marga að taka skrefið út úr þéttbýlinu. Auka þarf störf án staðsetninga ásamt því að gera fólki kleift að stunda nám án þess að þurfa að flytja landshorna á milli. Þeir sem stefna á iðnnám strax eftir grunnskóla eru bundnir greiðsemi ættingja og vina, því ekki er heimavist á höfuðborgarsvæðinu þar sem flestar iðngreinar eru kenndar. Hvernig getum við haldið því fram að jöfnuður til náms sé til staðar á Íslandi þegar svona er?

Það þarf að tryggja grunnþjónustu í öllum byggðum landsins. Samgöngur þurfa að vera öruggar og sinna þarf uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins um land allt sem og efla almenningssamgöngur. Það er einnig mikið öryggisatriði að góð fjarskipti séu til staðar í öllum landshlutum.

Samhliða uppbyggingu þarf að taka tillit til þerrar einstöku náttúru sem við búum við á Íslandi. Náttúran á alltaf að njóta vafans við ákvarðanatökur.

Það þarf fleira ungt fólk af landsbyggðinni í pólitík. Það er kominn tími á að hleypa okkur að.

Aðrir í forvali